Framboðið á íbúðamarkaði hefur aukist jafnt og þétt frá því að það var hvað minnst um mitt ár 2022 en þá mældust færri en 500 eignir til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt mælingum okkar voru um 2.800 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu nú í janúar og 45% af þeim nýbyggingar. Á nýliðnu ári fjölgaði nýjum íbúðum um ríflega 3.500 samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Það eru fleiri íbúðir en árin tvö þar á undan þegar um 3.000 nýjar íbúðir komu inn á markaðinn hvort ár.
Samkvæmt mælaborði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eru ríflega 7.400 íbúðir í byggingu á landinu öllu og stærsti hluti þeirra á fyrstu byggingarstigum. Vísbendingar eru um að hægt hafi á framkvæmdum nýbygginga og á heildina litið hefur íbúðum í byggingu fækkað. Áhrifa stýrivaxtahækkana er einnig farið að gæta á byggingamarkaði.
Á nýliðnu ári hækkaði íbúðaverð um tæplega 8% á milli ára og raunverð íbúða lækkaði þar af leiðandi um 1%. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2013 sem raunverð íbúða lækkar. Þessi hækkun á nýliðnu ári var í takti við okkar fyrri spá um íbúðamarkaðinn.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að losa um eigið fé Grindvíkinga í íbúðarhúsnæði munu að öðru óbreyttu auka eftirspurn og hækka íbúðaverð. Verðþróun á íbúðamarkaði á þessu ári veltur einna helst á því hvernig mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar munu spilast. Við gerum ráð fyrir að þær gangi ágætlega en spáum þó að íbúðaverð muni hækka meira á þessu ári vegna þessa.
Við spáum því að íbúðaverð hækki um 5,5% á þessu ári, um 3,4% á því næsta og um 4,3% árið 2026. Raunverð íbúða mun því nánast standa í stað næstu tvö árin en hækka um 1,3% á lokaári spátímans. Óvissan varðandi íbúðamarkaðinn er mikil. Til skemmri tíma er stærsti óvissuþátturinn fyrrnefndar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar. Til lengri tíma er framboð nýrra eigna stór óvissuþáttur.
Öflugur fasteignaleitarvefur með einföldu og notendavænu viðmóti sem býður upp á ítarlegar upplýsingar um fasteignir, þróun verðlags og fróðleik um fasteignamarkaðinn.